Sigurður Ragnar: Dauðariðillinn venst vel

Sigurður Ragnar ásamt fulltrúa Þýskalands lengst til vinstri og síðan …
Sigurður Ragnar ásamt fulltrúa Þýskalands lengst til vinstri og síðan þjálfurum Noregs og Frakklands. mbl.is/Ville Vuorinen

„Þetta var voðalega skemmtilegt og gaman að fá að taka þátt í svona atburði. Hér voru þjálfarar flestra liðanna og forráðamenn sambandanna auk þess sem Michel Platini sá um að draga,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna eftir að dregið hafði verið í EM kvenna í Finnlandi í dag.

Ísland lenti þar í riðli með Þýskalandi, Noregi og Frakklandi, þremur af allrasterkustu liðum Evrópu.

Hann sagði „dauðariðilinn“ venjast vel. „Því meira sem ég hugsa um þetta því sáttari verð ég með riðilinn,“ sagði landsliðsþjálfarinn og sagðist óneitanlega finna fyrir því að Ísland væri nýtt nafn á þessum vettvangi.

„Jú, maður finnur aðeins fyrir því að menn svona skoða þetta aðeins enda ekki daglegur viðburður að Íslendingar séu viðstaddir þegar dregið er í lokakeppni stórmóta. Við erum hér í fyrsta sinn og svo held ég að ég sé langyngsti þjálfarinn og það eru margir hissa á því að svona ungur maður sé þjálfari landsliðsins.

Kannski getum við nýtt okkur þetta eitthvað. Það getur auðvitað alltaf gerst að mótherjar okkar vanmeti okkur eitthvað enda erum við ekki með neina sögu á stórmótum,“ sagði Sigurður Ragnar.

Hann sagði að undirbúningur liðsins yrði eins góður og kostur væri. „Svo vonum við bara að þjóðin verði stolt af okkur þegar við spilum á lokamótinu næsta haust,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Sigurður Ragnar.
Sigurður Ragnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert