Til skamms tíma var skortur á frambærilegum markvörðum vandamál í knattspyrnu kvenna hér á landi. Íslenska landsliðið hefur reyndar búið svo vel um árabil að hafa átt einn af betri markvörðum heims, Þóru B. Helgadóttur, en lengi vel var vandséð hver ætti að leysa hana af hólmi.
Nú komast hins vegar færri að en vilja, fjórir markverðir berjast harðri baráttu um landsliðssætin og allt stefnir í að Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari þurfi að glíma við lúxusvandamál þegar hann ákveður hver og hverjar standi á milli stanganna í landsleikjum ársins 2009.
Fjórir markverðir vörðu mark Íslands á árinu 2008 og fengu allar tækifæri í byrjunarliðinu. Þóra og Guðbjörg léku fjóra leiki hvor og þær Sandra Sigurðardóttir og María B. Ágústsdóttir þrjá leiki hvor. María, sem hafði verið í hvíld í þrjú ár, kom inn í landsliðshópinn á ný og varði mark Íslands í báðum umspilsleikjunum við Íra í október og stóð þar vel fyrir sínu.
Í íþróttablaði Morgunblaðins í dag er rætt við Guðmund Hreiðarsson markvarðaþjálfara landsliðsins sem m.a. fer yfir kosti og galla markvarðanna fjögurra sem helst slást um landsliðssætin.