Veigar Páll Gunnarsson er á leið til franska liðsins Nancy. Forráðamenn norska meistaraliðsins Stabæk greina frá því á heimasíðu félagsins að félögin hafi komist að samkomulagi um kaupverðið á íslenska landsliðsmanninum. Veigar mun fara í læknisskoðun hjá félaginu og í kjölfarið mun hann semja við franska liðið um kaup og kjör.
„Við höfum komist að samkomulagi um stóru atriðin og það á aðeins eftir að skrifa undir samkomulagið. Ef Veigar kemst að samkomulagi um sín mál við Nancy þá fer hann til félagsins í byrjun janúar,“ segir Lars Bohinen íþróttastjóri Stabæk á heimasíðu félagsins.
„Það verður erfitt fyrir félagið að missa leikmanna á borð við Veigar, hann hefur verið mikilvægur hlekkur í okkar liði á undanförnum árum. Við sáum hinsvegar ekki aðra lausn en að selja Veigar á þessum tímapunkti þar sem það var fjárhagslega hagkvæmt fyrir félagið,“ bætir Bohinen við.
Veigar hefur spilað 148 leiki fyrir Stabæk og í 130 þeirra hefur hann verið í byrjunarliði. Hann skoraði 80 mörk fyrir félagið.