Eiður Smári kom ekkert við sögu í sigurleik

Robert Pires og Samuel Eto'o berjast um boltann í leiknum …
Robert Pires og Samuel Eto'o berjast um boltann í leiknum í kvöld. Reuters

Eiður Smári Guðjohnsen sat á varamannabekk Barcelona frá upphafi til enda leiks þegar Barcelona vann Villareal, 2:1, á útivelli í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Barcelona er þar með tíu stigum á undan Sevilla sem er í öðru sæti deildarinnar og 11 stigum ofar en Atlético Madrid.

Eftir markalausan fyrri hálfleik þá náði heimamenn yfirhöndinni á 48. mínútu með marki frá Cani sem slapp inn fyrir vörn Barcelona eftir snarpa sókn.

Seydou Keita jafnaði leikinn með laglegu skallamarki á 54. mínútu og tólf mínútum síðar skoraði Thierry Henry markið sem reyndist tryggja Barcelona sigurinn þegar upp var staðið.

Stundarfjórðungi fyrir leikslok var Gerard Pique, varnarmanni Barcelona, vísað af leikvelli þegar hann fékk sitt annað gula spjald. Eftir það áttu leikmenn Villareal nokkuð þokkaleg færi en lánaðist ekki að jafna metin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert