Eggert var bestur í borgarslagnum

Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson. Árni Sæberg

Eggert Gunnþór Jónsson, Eskfirðingurinn ungi sem leikur með skoska úrvalsdeildarliðinu Hearts, fær afar góða dóma fyrir frammistöðu sína gegn Hibernian en Edinborgarliðin gerðu markalaust jafntefli á Tynecastle Stadium, heimavelli Hearts, á laugardaginn.

Eggert lék í stöðu miðvarðar í fyrri hálfleik en í þeim síðari spilaði hann sem vinstri bakvörður.

Á heimasíðu Hearts var Eggert útnefndur maður leiksins og einnig hjá skoska blaðinu The Scotsman en í umsögn blaðsins segir að hann hafi átti frábæran leik í vörninni og fjölhæfni hans hafi berlega komið í ljós en Eggert hefur leikið sem miðvörður og ásamt því að spila bæði sem hægri og vinstri bakvörður og á miðjunni á þessu tímabili.

Ungverjinn Csaba Laszlo, knattspyrnustjóri Hearts, hrósaði Eggerti sérstaklega í viðtölum við fjölmiðla eftir leikinn við Hibernian og sagði hann hafa átt virkilega góðan leik.

Eggert, sem er 20 ára gamall, kom til Hearts frá Fjarðabyggð árið 2005 og lék sinn fyrsta leik með Edinborgarliðinu í september 2006. Hann framlengdi samningi sinn við Hearts í fyrra og var bundinn félaginu fram á sumar 2012. Lið hans er í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 32 stig en fyrir ofan eru Celtic með 51, Rangers með 46 og Dundee United með 35 stig. Aberdeen er svo í fimmta sætinu með 30 stig. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert