„Það vantar bara Steven Spielberg í AC Milan“

David Beckham
David Beckham Reuters

Uli Höness framkvæmdastjóri Bayern München er staddur í Dubai ásamt liði sínu þar sem þýska knattspyrnuliðið tekur þátt á sterku æfingamóti. Kastljósi fjölmiðla hefur aðallega verið beint að AC Milan og enska landsliðsmanninum David Beckham sem nýverið gekk í raðir Milan. Höness segir að mikill munur sé á Bayern München og AC Milan og gerir hann grín að því umstangi sem fylgir komu Beckham til AC Milan.

„Leikmenn Bayern München vita að þeirra starf er að spila fótbolta og ég kem að því að stjórna knattspyrnufélagi. Ég þarf ekki að eyða tíma mínum eða hafa áhyggjur af því hvort Victoria Beckham fái flottasta hótelherbergið í Dubai. Ég veit ekki afhverju AC Milan er að standa í þessu. Það eina sem vantar er að Steven Spielberg taki að sér að leikstýra þessu handriti sem þeir hafa skrifað.“

Beckham gagnrýndur af fjölmiðlum

Bandarískir og ítalskir fjölmiðlar hafa einnig gagnrýnt Beckham og þá aðila sem starfa fyrir hann. Umboðsskrifstofa Beckham fór fram á að fá háa greiðslu fyrir hvert einkaviðtal sem leikmaðurinn myndi veita á æfingaferðinni í Dubai. Var gert ráð fyrir að leikmaðurinn myndi fá um 80 milljónir kr. fyrir slíka „vinnu“ í ferðinni.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert