Um helgina verður leikið til úrslita á Íslandsmótinu í innanhússknattspyrnu, eða futsal eins og sú íþrótt heitir nú á alþjóðavísu. Fjögur lið leika um Íslandsmeistaratitlana í karla- og kvennaflokki og í karlaflokknum er enn meira í húfi því sigurliðið vinnur sér þátttökurétt í Evrópukeppni sem fer fram síðar á þessu ári.
Undanúrslitin fara fram í Austurbergi í dag og í karlaflokki leikur Víðir úr Garði við Víking frá Ólafsvík klukkan 10 og ÍBV mætir Hvöt frá Blönduósi klukkan 11. Sigurliðin mætast í úrslitaleik á morgun klukkan 13.30.
Í kvennaflokki leika Sindri og Þróttur R. klukkan 14 og HK/Víkingur mætir Selfossi klukkan 14. Sigurliðin leika til úrslita klukkan 12 á morgun.