Hjálmar Jónsson, knattspyrnumaður frá Egilsstöðum, skrifaði í gær undir nýjan samning til þriggja ára við sænska úrvalsdeildarfélagið IFK Gautaborg. Hann er þar með samningsbundinn félaginu til ársins 2012.
Hjálmar hefur spilað með Gautaborgarliðinu í sjö ár, lengst allra núverandi leikmanna félagsins, og verið fastamaður í stöðu vinstri bakvarðar allan tímann. Hann missti þó úr tæpt ár frá sumrinu 2005 til sumarsins 2006 vegna slæmra meiðsla en hefur að öðru leyti spilað megnið af leikjum liðsins, ávallt sem byrjunarliðsmaður, og á að baki 115 leiki í úrvalsdeildinni.
Tvö undanfarin ár hefur Hjálmar unnið tvo stærstu titlana í sænsku knattspyrnunni með IFK Gautaborg en félagið varð sænskur meistari 2007 og bikarmeistari 2008.
Hjálmar er 28 ára gamall, uppalinn hjá Hetti á Egilsstöðum og spilaði með meistaraflokki félagsins frá 15 til 18 ára aldurs. Hann var síðan í röðum Keflvíkinga í þrjú ár en gekk til liðs við IFK Gautaborg árið 2002. Hjálmar hefur leikið 18 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.