Að sögn færeyskra fjölmiðla er Lúkas Kostic einn þeirra sem koma til greina sem næsti þjálfari færeyska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Færeyska blaðið Sosialurinn greinir frá því að Lúkas Kostic, Skotinn Colin Calderwood og Daninn Flemming Serritslev séu á óskalista færeyska knattspyrnusambandsins um að taka við starfinu.
Kostic hætti störfum sem þjálfari U21 árs landsliðsins um áramótin sem og U17 ára landsliðsins en hann hefur mikla reynslu í þjálfun og hefur meðal annars þjálfað karlalið KR, Grindavíkur og Víkings.
Guðjón Þórðarson var einnig óskalista forkólfa knattspyrnusambands Færeyja en Guðjón ákvað að taka tilboði enska 2. deildarliðsins Crewe.
Jógvan Martin Olsen ákvað að hætta störfum sem landsliðsþjálfari Færeyja í lok ársins eftir þriggja ára starf og vonast stjórnarmenn í færeyska knattspyrnusambandinu til að finna eftirmann hans sem allra fyrst.
Á færeyska íþróttvefnum sportal.fo er skoðanakönnun á meðal lesenda vefjarsins um það hvern þeir vilja fá sem þjálfara og þegar 800 manns höfðu tekið þátt var Calderwood efstur á blaði með 57,3%, Serritslev er annar með 22,6% og Kostic þriðji með 20,1%.