Guðmundur Viðar Mete, varnarmaðurinn sterki sem leikið með hefur með Keflvíkingum í knattspyrnunni undanfarin ár, er genginn í raðir Vals og hefur gert samning sem gildir út þetta tímabil.
,,Ég ákvað að segja skilið við Keflavík og undirritaði nýlega starfslokasamning. Það var úr að ég ræddi við Valsmenn og hef gert samning sem gildir út tímabilið. Mér líst mjög vel á Val. Umgjörðin er glæsileg, leikmannahópurinn góður og þjálfarinn sömuleiðis og ég hlakka bara mikið til að spila með liðinu,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.