KR og Fjölnir tryggðu sér sæti í undanúrslitum Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu í dag þegar 14 mörk voru skoruðu í tveimur síðustu leikjum A-riðils. KR vann Þrótt R., 5:3, en Fjölnir og Leiknir R. skildu jöfn, 3:3.
KR vann þar með riðilinn á fullu húsi, 9 stigum, Fjölnir fékk 4 stig, Þróttur R. 3 stig og Leiknir R. 1 stig. KR leikur við lið númer tvö í A-riðli og Fjölnir við sigurliðið en þar koma Fylkir, Fram og Víkingur R. öll til greina fyrir lokaleik riðilsins milli Fylkis og Víkings annað kvöld.
Magnús Már Lúðvíksson skoraði fyrir KR í fyrsta leik sínum, gegn sínum gömlu félögum, en hann gekk til liðs við KR frá Þrótti í gær. Atli Jóhannsson, Guðmundur Pétursson og Skúli Jón Friðgeirsson skoruðu líka fyrir KR og eitt markanna var sjálfsmark en KR komst í 5:1 áður en Þróttur skoraði tvívegis í lokin. Andrés Vilhjálmsson, Hjörtur Hjartarson og Sigmundur Kristjánsson gerðu mörk Þróttar, 5:3.
Andri Valur Ívarsson skoraði öll þrjú mörk Fjölnis gegn Leikni R., þar af tvö á lokamínútunum eftir að Leiknir hafði komist í 3:1. Helgi Pjetur Jóhannsson, Helgi Óttarr Hafsteinsson og Ólafur H. Kristjánsson gerðu mörk Leiknismanna. Lokatölur 3:3.