Árni Gautur Arason mun verja mark Íslands gegn Liechtenstein í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu sem hefst á La Manga á Spáni klukkan 15.00.
Árni Gautur kemur í stað Gunnleifs Gunnleifssonar, sem hefur verið í byrjunarliðinu í þremur síðustu landsleikjum Íslands, en þetta verður fyrsti leikur Árna í byrjunarliði Íslands síðan í nóvember 2007 þegar hann varði markið í ósigri gegn Dönum, 0:3, í undankeppni EM í Kaupmannahöfn. Árni kom inná í hálfleik fyrir Gunnleif í vináttuleiknum gegn Möltu þann 20. nóvember. Viðbúið er að þeir félagar skipti þessum leik líka á milli sín og Gunnleifur spili síðari hálfleikinn.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari tilkynnti byrjunarliðið nú um hádegið. Hann gerir þrjár aðrar breytingar á liðinu frá HM-leiknum gegn Makedóníu í október. Kristján Örn Sigurðsson, Stefán Gíslason og Veigar Páll Gunnarsson eru ekki í hópnum að þessu sinni en í byrjunarliðinu í stað þeirra eru Ragnar Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson og Arnór Smárason.
Kristján Örn er meiddur, Stefán verður í banni í HM-leiknum gegn Skotum og var því ekki valinn í þennan leik, og Ólafur ákvað að gefa Veigari Páli tækifæri til að festa sig í sessi hjá sínu nýja félagi, Nancy í Frakklandi.
Byrjunarliðið er þá þannig skipað:
Markvörður:
Árni Gautur Arason, Odd Grenland
Varnarmenn:
Grétar Rafn Steinsson, Bolton
Ragnar Sigurðsson, IFK Gautaborg
Hermann Hreiðarsson, Portsmouth, fyrirliði
Indriði Sigurðsson, Lyn
Miðjumenn:
Birkir Már Sævarsson, Brann
Brynjar Björn Gunnarsson, Reading
Eiður Smári Guðjohnsen, Barcelona
Aron Einar Gunnarsson, Coventry
Emil Hallfreðsson, Reggina
Framherji:
Arnór Smárason, Heerenveen
Varamenn:
Gunnleifur Gunnleifsson, HK
Sölvi Geir Ottesen, SönderjyskE
Bjarni Ólafur Eiríksson, Val
Pálmi Rafn Pálmason, Stabæk
Helgi Valur Daníelsson, Elfsborg
Theódór Elmar Bjarnason, Lyn
Garðar Jóhannsson, Fredrikstad
Fylgst verður með gangi mála í leiknum á La Manga hér á mbl.is.