Ísland vann mjög öruggan sigur á Liechtenstein, 2:0, í vináttulandsleik í knattspyrnu karla sem fram fór á La Manga á Spáni í dag.
Íslenska liðið hafði leikinn í hendi sér nánast frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu og leikmenn Liechtenstein náðu aðeins að hitta einu sinni á mark Íslands allan tímann, strax á 7. mínútu. Arnór Smárason kom Íslandi yfir á 28. mínútu og Eiður Smári Guðjohnsen bætti öðru marki við á 47. mínútu, beint úr aukaspyrnu. Þrátt fyrir góð færi urðu mörkin ekki fleiri.
Lið Íslands: Árni Gautur Arason (Gunnleifur Gunnleifsson 46.) - Grétar Rafn Steinsson, Ragnar Sigurðsson, Hermann Hreiðarsson (Sölvi Geir Ottesen 60.), Indriði Sigurðsson (Bjarni Ólafur Eiríksson 79.) - Birkir Már Sævarsson, Brynjar Björn Gunnarsson (Pálmi Rafn Pálmason 60.), Eiður Smári Guðjohnsen, Aron Einar Gunnarsson (Helgi Valur Daníelsson 70.), Emil Hallfreðsson (Theódór Elmar Bjarnason 60.) - Arnór Smárason.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir. Nánar verður fjallað um leikinn og rætt við þjálfara og leikmenn í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.
LEIK LOKIÐ.
88. Það er fín stemmning meðal ríflega 100 íslenskra áhorfenda á vellinum í La Manga. Þeir hafa þó lýst yfir óánægju með frammistöðu vallarstarfsmanna sem höfðu stöðuna 0:0 á markatöflunni allan fyrri hálfleikinn og svo 1:0 langt frameftir síðari hálfleik. Þar birtist þó staðan 2:0 seint og um síðir!
87. Pálmi Rafn Pálmason með sendingu á Theódór Elmar Bjarnason sem var kominn í ákjósanlegt færi en var stöðvaður á síðustu stundu.
79. Bjarni Ólafur Eiríksson inná fyrir Indriða Sigurðsson.
78. Það hefur verið rólegt uppi við markið síðustu mínúturnar og leikurinn einkennst af baráttu um svæði. Íslendingar hafa þó haft full tök á leiknum og halda boltanum vel sem fyrr. Gunnleifur Gunnleifsson hefur bókstaflega ekkert haft að gera í marki Íslands í seinni hálfleiknum.
71. Eiður Smári Guðjohnsen slapp einn gegn Büchel markverði eftir þríhyrningsspil við Arnór Smárason en Büchel sá við honum og varð vel.
70. Helgi Valur Daníelsson inná fyrir Aron Einar Gunnarsson.
70. Pálmi Rafn Pálmason með skot yfir mark Liechtenstein eftir hornspyrnu.
64. Birkir Már Sævarsson átti glæsilega rispu upp hægri kantinn, lék á bakvörðinn og slapp einn inní vítateiginn og gegn markverðinum sem varði þrumuskot hans naumlega í horn.
61. Theódór Elmar Bjarnason gerði strax vart við sig og átti skot framhjá marki Liechtenstein.
60. Þreföld skipting Íslands. Sölvi Geir Ottesen, Theódór Elmar Bjarnason og Pálmi Rafn Pálmason inná fyrir Hermann Hreiðarsson, Emil Hallfreðsson og Brynjar Björn Gunnarsson.
59. Hörkuskot Brynjars Björns Gunnarssonar að marki Liechtenstein af ríflega 30 m færi en Büchel ver glæsilega með því að slá boltann í horn.
58. Emil Hallfreðsson komst einn gegn Büchel markverði sem varði mjög vel frá honum.
53. Emil Hallfreðsson með skot af löngu færi en framhjá markinu. Íslendingar geysast í hverja sóknina á fætur annarri og virðast staðráðnir í að láta kné fylgja kviði og skora fleiri mörk.
49. Emil Hallfreðsson með fína fyrirgjöf og engu munar að Birki Má Sævarssyni takist að stýra boltanum í netið. Missir hárfínt af boltanum.
47. MARK 2:0. EIÐUR SMÁRI GUÐJOHNSEN tók aukaspyrnu um 25 metra frá markinu, lyfti boltanum snyrtilega yfir varnarvegginn og í markhornið hægra megin. Fallega gert. Hans 23. mark í 56 landsleikjum og Eiður bætir markametið enn frekar.
46. Síðari hálfleikur er hafinn á La Manga. Gunnleifur Gunnleifsson ver mark Íslands í síðari hálfleik en hann er kominn inná fyrir Árna Gaut Arason.
HÁLFLEIKUR, 1:0. Íslenska liðið réð algjörlega ferðinni í fyrri hálfleik og spilaði oft á tíðum mjög vel. Aron Einar Gunnarsson og Brynjar Björn Gunnarsson hafa gjörsamlega átt miðjuna og stjórnað gangi mála þar. En aðeins eitt mark Arnórs Smárasonar skilur liðin að.
45. Hermann Hreiðarsson átti sendingu innfyrir vörnina á Eið Smára Guðjohnsen en Büchel markvörður var vel á verði og náði að góma boltann á undan honum.
43. Arnór Smárason var sloppinn í gegnum vörnina en missti boltann frá sér og afturfyrir endamörkin.
42. Eiður Smári Guðjohnsen sneri sér framhjá varnarmönnum í vítateignum en einn þeirra náði að komast fyrir skot hans.
35. Birkir Már Sævarsson féll í vítateig Liechtenstein en dómarinn sá ekki ástæðu til að bregðast við því.
33. Eiður Smári Guðjohnsen vippaði boltanum glæsilega innfyrir vörnina á Arnór Smárason. Hann reyndi að lyfta boltanum yfir Benjamin Büchel markvörð sem sá við honum.
32. Eiður Smári Guðjohnsen fékk gula spjaldið fyrir kjaftbrúk við dómarann, eftir að hafa verið felldur af Gerster, varnarmanni Liechtenstein.
28. MARK - 1:0. Eftir hornspyrnu fékk Eiður Smári Guðjohnsen boltann í vítateignum, plataði nokkra andstæðinga og renndi honum síðan á Emil Hallfreðsson. Hann skaut, markvörðurinn varði en ARNÓR SMÁRASON fylgdi vel á eftir og náði að skora sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands.
27. Indriði Sigurðsson brunaði einn upp vinstri kantinn og sendi fyrir markið en Arnór Smárason missti aftur naumlega af boltanum.
23. Arnór Smárason komst einn innfyrir vörn Liechtenstein, valdi að skjóta í stað þess að leika á markvörðinn en skaut yfir markið.
20. Liechtenstein fékk hornspyrnu og Mario Frick skaut eftir hana utan vítateigs en hátt yfir íslenska markið. Ísland ræður annars ferðinni á vellinum sem fyrr og hefur líklega verið með boltann um 90 prósent af leiktímanum til þessa.
18. Loks hittu Íslendingar á markið. Emil Hallfreðsson með skot en markvörðurinn varði örugglega.
13. Aron Einar Gunnarsson lék á þrjá mótherja á miðjunni og sendi út til hægri á Birki Má Sævarsson. Hann átti góða fyrirgjöf en Arnór Smárason var sekúndubroti of seinn til að ná til boltans í fínu færi.
12. Liechtenstein fékk sitt fyrsta ákjósanlega færi. Thomas Beck var kominn í miðjan vítateig og átti skot en Hermann Hreiðarsson náði að kasta sér fyrir hann á síðustu stundu og afstýrði hættunni.
10. Íslenska liðið hefur byrjað leikinn af krafti, ræður algjörlega ferðinni og heldur boltanum vel. Lið Liechtenstein ætlar greinilega ekki að gefa mörg færi á sér, verst mjög aftarlega á vellinum og reynir lítið að pressa íslensku leikmennina.
7. Árni Gautur Arason markvörður snerti boltann í fyrsta skipti og varði þá auðveldlega laflaust skot frá Mario Frick.
6. Arnór Smárason með gott skot yfir mark Liechtenstein, rétt utan vítateigs.
5. Áhorfendur á La Manga eru um 150 talsins. Þar af eru í kringum 100 Íslendingar sem mættir eru með fána og styðja sitt lið en síðan er slæðingur af Norðmönnum, enda nokkuð af norskum liðum á La Manga um þessar mundir.
4. Arnór Smárason komst í ákjósanlegt færi í vítateig Liechtenstein en skaut rétt framhjá.
2. Ísland hóf leikinn með mikilli pressu og strax á 2. mínútu fékk Emil Hallfreðsson ágætis færi en skallaði framhjá marki Liechtenstein eftir góða fyrirgjöf Grétars Rafns Steinssonar frá hægri.
Leikurinn fer fram í glampandi sólskini en nokkrum hliðarvindi. Hiti er um 15 stig og nokkur hópur Íslendinga er mættur á völlinn til að styðja sína menn.
Þetta er fimmta viðureign þjóðanna og fyrsti vináttulandsleikurinn þeirra á milli. Ísland vann Liechtenstein tvisvar, 4:0 og 4:0, í undankeppni HM árið 1997. Þjóðirnar mættust tvisvar árið 2007, í undankeppni EM, og gerðu þá jafntefli, 1:1, á Laugardalsvellinum en Liechtenstein vann seinni leikinn í Vaduz, 3:0.
Bæði liðin búa sig undir þýðingarmikla leiki í undankeppni HM mánaðamótin mars/apríl. Ísland leikur þá við Skotland í Glasgow og Liechtenstein leikur þá gegn Þýskalandi á útivelli og Rússlandi á heimavelli.