Jafnréttisverðlaun Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, voru afhent í fyrsta sinn í morgun á ársþingi KSÍ sem nú stendur yfir í höfuðstöðvum sambandsins í Laugardal. Verðlaunin komu í hlut Knattspyrnudeildar ÍR fyrir verkefni þeirra „Innan vallar sem utan“ og Víðis Sigurðssonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, fyrir skrásetningu sögu íslenskrar knattspyrnu.
Knattspyrnudeild ÍR hefur lagt mikinn metnað í það að ná til innflytjenda og létu gera rannsókn á þátttöku innflytjenda í íþróttum. Hægt er að nálgast almennar upplýsingar á heimasíðu ÍR á sex tungumálum.
Víðir Sigurðsson, blaðamaður, hefur að mati KSÍ verið fremstur í flokki í skrásetningu íslenskrar knattspyrnu í mörg ár. Hann hefur jafnan lagt áherslu á að skrifa jafnt um konur og karla á öllum aldri.
Það var formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, sem afhenti viðurkenningarnar.