Sigur Íslands á Noregi, 3:1, í Olhao á Algarve í dag eru ein óvæntustu úrslitin í sögu Algarve-bikarsins í knattspyrnu kvenna en keppnin er nú haldin í sextánda skipti.
Sænski vefmiðillinn Damfotboll viðhefur þessi orð í umsögn um leikinn en segir jafnframt að um mjög sanngjarnan sigur Íslands hafi verið að ræða. Íslendingar hafi sigrað Norðmenn á þeirra eigin bragði, verið sterkari í návígjunum og í baráttu um hvern bolta.
Í umfjöllun Damfotboll segir jafnframt að Sara Björk Gunnarsdóttir hafi verið besti leikmaður vallarins, en hún sé þó ein af aðeins þremur í byrjunarliði Íslands sem ekki spili í sænsku úrvalsdeildinni.