Haukar unnu góðan sigur á ÍBV, 2:1, í fjórða riðli A-deildar karla í Lengjubikarnum í knattspyrnu í kvöld, en leikið var í Kórnum í Kópavogi. Leikurinn þótti annars daufur og ekki mikill að gæðum.
Það voru helst Haukar sem náðu einhverju spili í leiknum í kvöld, meðan Eyjamenn voru í „kick and run“ taktíkinni. Fyrsta markið gerði Hilmar Trausti Arnarsson á 23. mínútu fyrir Hauka úr vítaspyrnu, en Andri Ólafsson jafnaði metin fyrir ÍBV á 55. mínútu.
Ómar Sigurðsson kom Haukum yfir á 80. mínútu en þeir léku manni fleiri síðustu níu mínúturnar, því Andri Ólafsson, markaskorari Eyjamanna, fékk sitt annað gula spjald á 81. mínútu.
Haukar eru því efstir í riðlinum með 4 stig, en Eyjamenn eru áfram neðstir án stiga.