„Þetta voru sanngjörn úrslit, Danir voru betri en við í dag," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu við mbl.is eftir ósigurinn gegn Dönum, 0:2, í Algarve-bikarnum í Portúgal í dag.
Ísland hafnaði í þriðja sæti B-riðils með 3 stig. Bandaríkin sigruðu með 9 stig, Danmörk fékk 6 stig en Noregur tapaði öllum sínum leikjum. Bandaríkin leika við Svíþjóð um gullverðlaunin, Danmörk við Þýskaland um bronsverðlaunin og Ísland við Kína um 5. sætið. Norðmenn þurfa hinsvegar að spila um 9. sætið á mótinu.
„Danir eru með hörkugott lið, spila mjög góðan fótbolta með einum til tveimur snertingum og það reyndist mjög erfitt að spila á móti þeim. Leikmenn liðsins eru afar hreyfanlegir og við vorum skrefinu á eftir allan leikinn. En við erum hér til að læra af bestu liðunum og fáum gífurlega reynslu útúr þessu móti, sem er svipað að styrkleika og úrslitakeppni EM í sumar," sagði Sigurður Ragnar.
Textalýsing mbl.is frá leiknum.
Nánar er rætt við hann og fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.