Sjötta sæti eftir 1:2 tap gegn Kína

Dóra Stefánsdóttir í baráttu gegn kínverskum leikmanni.
Dóra Stefánsdóttir í baráttu gegn kínverskum leikmanni. Algarvephotopress

Ísland hafnaði í sjötta sæti Algarve-bikarsins í knattspyrnu kvenna eftir ósigur gegn Kína, 1:2, í tvísýnum leik um fimmta sæti mótsins sem fram fór í Olhao í dag.

Það var Harpa Þorsteinsdóttir sem skoraði mark Íslands en hún jafnaði metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Íslenska liðið hafði í fullu tré við það kínverska allan tímann en vantaði herslumuninn til að ná fram hagstæðari úrslitum.

Kínverjar náðu því að koma fram hefndum eftir óvæntan skell fyrir Íslendingum, 4:1, á sama móti fyrir tveimur árum en þá léku þjóðirnar um níunda sæti mótsins.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og fer bein textalýsing frá leiknum hér á eftir:

90+4. Leik lokið með sigri Kínverja, 2:1, og þeir hreppa því fimmta sætið en Ísland 6. sætið.

90+2. Guðbjörg Gunnarsdóttir ver vel hörkuskot Kínverja eftir snögga sókn.

90. Fjórum mínútum bætt við leiktímann. Ísland sækir af kappi en fær ekki nógu mörg færi.

90. Hallbera Gísladóttir með skalla rétt yfir kínverska markið eftir fyrirgjöf Eddu Garðarsdóttur.

84. Kínverjar í skyndisókn gegn fáliðaðri vörn Íslands og eiga skot rétt framhjá markinu.

84. Margrét Lára Viðarsdóttir sleppur framhjá varnarmönnum og í ágætt færi en skotið er varið af öryggi.

82. Ásta Árnadóttir kemur inná fyrir Sif Atladóttur.

78. Hallbera Gísladóttir kemur inná fyrir Hörpu Þorsteinsdóttur. Íslenska liðið sækir og freistar þess af öllum mætti að jafna metin.

74. Erna Björk Sigurðardóttir kemur inná  fyrir Ólínu G. Viðarsdóttur.

74. Margrét Lára Viðarsdóttir með mjög gott skot, boltinn strýkst framhjá stöng og Íslendingarnir á bekknum voru byrjaðir að fagna marki!

69. 1:2. Yu Yuan slapp innfyrir vörn Íslands og skoraði af öryggi.

68. Vænleg skyndisókn Íslands, þrír leikmenn gegn tveimur kínverskum varnarmönnum sem þó tókst að komast fyrir skot Fanndísar Friðriksdóttur.

63. Erla Steina Arnardóttir fær boltann frá Fanndísi Friðriksdóttur og skýtur framhjá úr góðu færi.

61. Hólmfríður Magnúsdóttir kemur inná fyrir Dóru Maríu Lárusdóttur.

54. Erla Steina Arnardóttir kemur inná fyrir Dóru Stefánsdóttur.

52. Dóra María Lárusdóttir með skot rétt framhjá marki Kínverja úr góðu færi.

51. Margrét Lára Viðarsdóttir reynir langskot að kínverska markinu en framhjá.

50. Kínverjar í ágætu færi en skjóta rétt framhjá.

47. Kínverjar fengu aukaspyrnu á vænlegum stað, rúma 20 m frá marki. Spilað var úr henni í stað skots og að lokum hreinsaði Dóra María Lárusdóttir rækilega frá marki Íslands.

46. Engar breytingar á liði Íslands í hálfleik en fyrirskipun Sigurðar Ragnars þjálfara fyrir seinni hálfleikinn er hápressa að marki Kína.

HÁLFLEIKUR. Íslenska liðið verðskuldaði jöfnunarmarkið í lok hálfleiksins og nú er allt í járnum fyrir baráttuna í síðari hálfleik.

45+2. 1:1. Kínversku varnarmennirnir voru að dóla með boltann fyrir framan eigin vítateig þegar Harpa Þorsteinsdóttir hirti hann einfaldlega af þeim og skoraði með fínu skoti frá vítateigslínu. Fyrsta mark Hörpu fyrir A-landslið Íslands.

44. Fanndís Friðriksdóttir kemur inná fyrir Rakel Hönnudóttur sem ekki jafnaði sig nægilega eftir höfuðhöggið.

38. Rakel Hönnudóttir með hörkuskalla í stöng eftir hornspyrnuna frá Eddu. Hún fékk um leið talsvert högg og þurfti aðhlynningu. Íslensku leikmennirnir heimtuðu vítaspyrnu en leikur hófst á ný með dómarakasti.

37. Edda Garðarsdóttir með fínan skalla á mark eftir fyrirgjöf Sif Atladóttur en kínverski markvörðurinn Zhang Yanru varði í horn.

28. Íslenska liðið hefur komið framar á völlinn eftir markið og pressar talsvert en hefur enn ekki náð að skapa sér góð færi.

20. 0:1. Lou Jiahui kom Kínverjum yfir þegar hún fékk boltann utarlega í vítateig Íslands og skoraði með góðu skoti.

17. Guðbjörg markvörður grípur mjög vel inní eftir hornspyrnu, eins og hún hefur gert í þau skipti sem á hana hefur reynt. Ísland virkar sterkari aðilinn ef eitthvað er en vantar að skapa marktækifæri enn sem komið er.

16. Liu Sa með skot að marki Íslands en hátt yfir.

9. Margrét Lára Viðarsdóttir lék á nokkra kínverska varnarmenn og sendi á Hörpu Þorsteinsdóttur sem var í góðu færi en féll við og færið rann út í sandinn.

8. Eftir mjög jafna og rólega byrjun áttu Kínverjar langskot sem Guðbjörg Gunnarsdóttir varði örugglega.

1. Leikurinn er hafinn í Olhao. Katrín Ómarsdóttir, María B. Ágústsdóttir og Sara Björk Gunnarsdóttir taka ekki þátt í leiknum í dag vegna meiðsla sem þær hafa orðið fyrir á mótinu. María meiddist á öxl í leiknum við Danmörku og það er því enginn varamarkvörður til taks á bekknum.

11.10: Upphitun íslenska liðsins var stytt vegna hita en það er 25 stiga hiti og glampandi sól í Algarve. Kínverjunum fannst þó ekki heitara en svo að sumir þeirra leikmanna hituðu upp með vettlinga!

Lið Íslands: Guðbjörg Gunnarsdóttir - Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir - Rakel Hönnudóttir, Edda Garðarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir, Dóra María Lárusdóttir - Harpa Þorsteinsdóttir.

Leikið er um öll sæti Algarve-bikarsins í dag. Úrslitaleikur Svíþjóðar og Bandaríkjanna hefst kl. 16 og Þýskaland mætir Danmörku kl. 13.15 í leik um bronsið. Aðrir leikir hefjast kl. 11.30. Um 7. sætið leika Portúgal og Finnland, um 9. sætið leika Noregur og Austurríki og um 11. sætið leika Wales og Pólland.

Þetta er annar landsleikur Íslands og Kína en liðin léku um 9. sætið á sama móti árið 2007 og þá vann Ísland óvæntan stórsigur, 4:1. Margrét Lára Viðarsdóttir gerði tvö markanna og þær Dóra María Lárusdóttir og Greta Mjöll Samúelsdóttir eitt hvor.

Kína gerði 0:0 jafntefli við Svíþjóð í sínum fyrsta leik á mótinu, tapaði 0:3 fyrir Þýskalandi en sigraði síðan Finnland, 1:0. Kína komast í 8-liða úrslit á síðasta heimsmeistaramóti, 2007, og fékk silfur á  HM 1999. Kínverska liðið vann Algarve-bikarinn 1999 og 2002 og fékk silfur á mótinu 1997 og 2003.

Margrét Lára Viðarsdóttir leikur í dag sinn 50. landsleik fyrir Íslands hönd.

Harpa Þorsteinsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir fagna marki Hörpu.
Harpa Þorsteinsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir fagna marki Hörpu. Algarvephotopress
Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Harpa Þorsteinsdóttir jafnaði metin í …
Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Harpa Þorsteinsdóttir jafnaði metin í lok fyrri hálfleiks. Algarvephotopress
Dóra María Lárusdóttir sækir að marki Kínverja en Liu Huana …
Dóra María Lárusdóttir sækir að marki Kínverja en Liu Huana er til varnar. Algarvephotopress
Það fer vel um Íslendinga á varamannabekknum í sólinni í …
Það fer vel um Íslendinga á varamannabekknum í sólinni í Olhao. Algarvephotopress
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Kína í dag.
Byrjunarlið Íslands í leiknum gegn Kína í dag. Algarvephotopress
Margrét Lára Viðarsdóttir reynir skot að marki Kínverja.
Margrét Lára Viðarsdóttir reynir skot að marki Kínverja. Algarvephotopress
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert