Kjartan í hópi Sandefjord gegn Brann

Kjartan Henry Finnbogason hefur verið lengi frá vegna meiðsla en …
Kjartan Henry Finnbogason hefur verið lengi frá vegna meiðsla en gæti spilað í kvöld. mbl.is/Kristinn

Knattspyrnumaðurinn Kjartan Henry Finnbogason sem hefur verið lengi frá æfingum og keppni vegna meiðsla, verður í leikmannahópi Sandefjord í kvöld þegar liðið tekur á móti Brann í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Kjartan Henry lék með Sandefjord í 1. deildinni í fyrra en þar hafnaði liðið í öðru sæti og Kjartan skoraði 9 mörk fyrir liðið í deildinni. Í vetur hefur hann alveg misst af undirbúningstímabilinu en hefur nú náð að æfa í eina viku og verður í hópnum í kvöld.

Þrír Íslendingar eru í hópnum hjá Brann í kvöld, Ólafur Örn Bjarnason, Kristján Örn Sigurðsson og Ármann Smári Björnsson. Gylfi Einarsson var ekki valinn í 18 manna hópinn að þessu sinni og Birkir Már Sævarsson missir af fyrstu umferðum deildarinnar vegna meiðsla.

Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari verður á meðal áhorfenda í Sandefjord í kvöld og gæti því séð fjóra íslenska leikmenn á ferðinni. Hann hefur séð þrjá aðra spila í fyrstu umferðinni, Ólafur var á leik Stabæk og Lilleström á laugardagskvöldið þar sem Pálmi Rafn Pálmason skoraði mark Stabæk, 1:1, og svo sá hann Lyn tapa gegn Molde í gær, 0:1, þar sem Indriði Sigurðsson og Theódór Elmar Bjarnason voru í liði Lyn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka