Hinn litríki knattspyrnustjóri Inter í Mílanó, José Mourinho, hefur einn einu sinni komið sér í vandræði vegna ummæla sinna. Hann sakar nú kollega sína á Ítalíu um að vera undir áhrifum forseta félaganna þegar þeir velja byrjunarlið sín.
„Það er ég sem vel mín byrjunarlið, en þetta er ekki svo hjá öðrum þjálfurum og heimurinn er fullur af slíkum þjálfurum. Það er svona sem ég vildi meina að þjálfarar misstu sjálfsvirðinguna. Ef einhver háttsettur segði mér hvaða menn ég ætti að velja í liðið mitt, væri skrifstofan mín tóm daginn eftir og töskurnar mínar fullpakkaðar,“ sagði Mourinho.
Forseti ítalska þjálfarasambandsins, Renzo Ulivieri, fordæmdi orð Mourinho: „Mourinho hefur verið meðlimur í samtökum okkar, okkur til stolts og virðingar, en í þetta skipti hefur hann gengið of langt. Spyrjið Capello, Lippi, Spalletti, Prandelli og Allegri hvort þeir láti aðra velja liðin sín!“