Henrik Larsson, framherji Helsingborgar og sænska landsliðsins, segir að Svíþjóð gæti vel tekið upp á því að sýna leikræn tilþrif á vellinum, verði það til þess að landa sigri gegn Portúgal í leik liðanna í undankeppni HM á laugardaginn.
„Þegar kemur að því að vinna leiki, og ég veit að það er rangt af mér að segja þetta, þá þarf að nota öll tiltæk ráð. Allir í liðinu vilja sigra, enginn vill tapa. Og það skiptir ekki máli hvernig við vinnum. Það þarf að vera í réttu stöðunni, og með góða tímasetningar til að láta sig detta í leik. Það getur hjálpað til í mörgum tilvikum. Gildir einu hvernig það lítur út,“ sagði Larsson við Fotbollskanalen.
Leikræn tilþrif portúgölsku leikmannanna hafa verið gagnrýnd í Svíþjóð fyrir leikinn, sér í lagi Cristiano Ronaldo, og virðist Larsson ætla að láta þá portúgölsku falla á eigin bragði, ef svo má að orði komast.