„Ég veit ekki hvað við höfum gert þessum knattspyrnuguðum, þetta virðist alltaf vera svona á móti Skotunum. Mig langar mest til að fara heim í fýlu, þetta var svo svekkjandi,“ sagði Hermann Hreiðarsson fyrirliði íslenska knattspyrnuliðsins eftir 2:1 tap fyrir Skotum á Hampden Park í Glasgow í kvöld í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. „Þetta er orðið
hálfþreytandi á móti Skotum,“ sagði fyrirliðinn.
„Ég sá boltann nokkrum sinnum inni þarna í lokin. Ég var meira að segja byrjaður að fagna þegar Pálmi skaut í stöngina þarna í fyrra markinu, en sem betur fer var Indriði vel á verði og náði að skora. Síðan fékk ég færi þarna síðar og svo annað. Þetta gengur auðvitað ekki, maður verður að nýta færin sem maður fær,“ sagði Hermann um þá miklu pressu sem íslenska liðið setti á skoska markið undir lokin, en án árangurs.
Ítarlegra viðtal verður við Hermann í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.