„Ég er ánægður með leik strákanna, ég verð að segja það þó svo við höfum tapað leiknum. Úrslitin voru að sjálfsögðu ekki góð fyrir okkur og það gefur lítið að vera sáttur við liðið sitt og svo tapar það. Það hljómar einkennilega og á sjálfsagt ekki að vera þannig,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, eftir tapið á Hampden Park í kvöld, 2:1.
„Ég sá boltann inni í öðru skotinu og alveg viss um að hann væri inni þegar Pálmi Rafn tók sitt skot, en það var víst ekki og það var mjög svekkjandi og gríðarlega fúlt að ná ekki stigi hérna. Ég held að Skotar hafi andað léttar en við þegar flautað var til leiksloka. Það sést líka á því
hvernig þeir reyndu að tefja allan síðari hálfleikinn við hverju þeir bjuggust af okkur eftir hlé. Þeir voru mjög fegnir þegar flautað var til leiksloka,“ sagði Ólafur.
Ítarlegra viðtal verður við Ólaf í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.