Kristján Örn Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, reyndist hetja Brann þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Rosenborg í norsku úrvalsdeildinni í gærkvöld. Skoraði Kristján jöfnunarmarkið á 83. mínútu, skallamark af stuttu færi og tryggði Brann þar með eitt stig í Þrándheimi.
„Við áttum hornspyrnu sem þeir náðu að skalla frá á Erik Huseklepp sem gaf boltann fyrir og ég skallaði hann inn af stuttu færi inni á vítateignum hjá Rosenborg. Við vorum betri aðilinn í leiknum ef ég á að segja eins og er og því sanngjarnt að fá stig út úr leiknum, en þau eru ekki auðsótt á Lerkendal-völlinn í Þrándheimi,“ sagði Kristján Örn við Morgunblaðið í gærkvöld.
Nánar er rætt við Kristján í Morgunblaðinu í dag.