Færeyingar hafa ráðið nýjan landsliðsþjálfara í knattspyrnu, en það er Írinn Brian Kerr. Þetta kom fram á blaðamannafundi nú í morgun.
Meðal þeirra sem komu til greina í starfið voru Luka Kostic, Colin Calderwood og Flemming Serritslev, en Kerr hreppti hnossið.
Kerr fæddist í Dublin árið 1953 og hóf þjálfunarferil sinn aðeins 11 ára gamall, en hans fyrsta alvörustarf í þjálfun kom árið 1986, þegar hann tók við St. Patrick´s Athletic. Hann hefur einnig þjálfað unglingalandslið Írlands, en tók við aðalliðinu árið 2003 eftir að Mick McCarthy sagði af sér. Eftir að liðið náði ekki að tryggja sér farseðilinn á Hm 2006 hætti hann með liðið og gerðist yfirmaður knattspyrnumála hjá St. Patrick´s Athletic árið 2007. Hann hætti þar í maí 2008.
Kerr tekur við góðu búi, lið Færeyja vann Ísland í fyrsta skipti í sögunni, í æfingarleik í síðasta mánuði og virðist því á uppleið.