Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom ekkert við sögu þegar Esbjerg tapaði fyrir OB, 2:1, í Óðinsvéum í dag í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Hann var í staðinn látinn leika með varaliði Esbjerg í dönsku 2. deildinni og gerði þar heldur betur vart við sig með því að skora öll fjögur mörk liðsins í sigri á Varde, 4:3. Sigmundur Kristjánsson var líka á skotskónum í sömu deild.
Kári Árnason lék líka með varaliði Esbjerg í dag, í 70 mínútur, en það var fyrsti leikur hans í búningi félagsins eftir að hann kom þangað í láni frá AGF fyrr í vetur. Kári þurfti að fara í aðgerð vegna meiðsla á hné og er nýbyrjaður að æfa aftur eftir hana.
OB er í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar eftir sigurinn í dag, fimm stigum á eftir FCK Köbenhavn sem er efst. Esbjerg er í 8. sæti með 21 stig að loknum 23 leikjum.
Sigmundur Kristjánsson, sem gekk til liðs við Árósaliðið Brabrand frá Þrótti R. í vetur, skoraði í sínum öðrum leik í röð í dönsku 2. deildinni í dag en hann gerði þá seinna markið í 2:0 sigri Brabrand á Hjörring. Brabrand á nú góða möguleika á að komast í umspil um 1. deildarsæti.
FC Fyn er langefst í vesturriðli 2. deildar með 42 stig, varalið OB er með 35 stig, Brabrand og Blokhus 34 og varalið Esbjerg er með 33 stig. Varaliðin komast ekki uppí 1. deild en liðið í öðru sæti fer í umspil og Brabrand færi þangað eins og staðan er nú.
Í 1. deildinni vann Viborg sigur á Kolding, 3:1, en Rúrik Gíslason gat ekki leikið með Viborg vegna meiðsla. Lið hans er í öðru sæti með 39 stig en Herfölge er á toppnum með 40 stig. Rúrik er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar með 11 mörk.