Birkir Már lagði upp mark Brann

Birkir Már Sævarsson, einn fjögurra Íslendinga í byrjunarliði Brann.
Birkir Már Sævarsson, einn fjögurra Íslendinga í byrjunarliði Brann. mbl.is/Árni Sæberg

Birkir Már Sævarsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, lagði upp mark Brann í gærkvöld þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Vålerenga á útivelli í norsku úrvalsdeildinni.

Markið kom strax á 4. mínútu, eftir fyrirgjöf frá hægri átti Birkir skalla inn að marki Vålerenga þar sem Jan Gunnar Solli skoraði auðveldlega af örstuttu færi. Fjórir af fimm Íslendingunum hjá Brann léku allan leikinn. Birkir lék vinstra megin á miðjunni að þessu sinni, Gylfi Einarsson inni á miðjunni og þeir Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason sem miðverðir.

Brann hefur enn ekki náð að innbyrða sigur eftir fimm umferðir og situr í fimmtánda og næstneðsta sætinu með aðeins þrjú stig.

Skagatáningurinn Björn Bergmann Sigurðarson var í byrjunarliði Lilleström í fyrsta sinn þegar liðið gerði jafntefli, 1:1, við Tromsö. Björn var ágengur við mark Tromsö og var tvívegis nærri því að skora en hann lék í 80 mínútur.

Meistarar Stabæk töpuðu sínum fyrsta leik, 2:3 heima gegn Molde sem hefur komið mjög á óvart og trónir á toppi deildarinnar. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert