Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður sænska úrvalsdeildarliðsins Djurgården og íslenska landsliðsins, fór úr axlarliði í leik með Djurgården gegn meisturum Umeå í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld. „Ég er bara orðlaus yfir þessu. Þetta er hrikalega svekkjandi,“ sagði Guðbjörg í samtali við Morgunblaðið í gær.
Hún verður frá keppni í nokkrar vikur og það er ljóst að hún verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Hollendingum í vináttuleik á laugardag í Kórnum.
Guðbjörg var borin af velli á 16. mínútu leiksins eftir að hafa lent á stönginni. Djurgården tapaði á heimavelli, 5:2, eftir að hafa unnið fyrstu þrjá leiki sína og lék Guðrún Sóley Gunnarsdóttir allan tímann í vörn Djurgården.
Guðbjörg var stödd á sjúkrahúsi í Stokkhólmi þegar Morgunblaðið náði tali af henni í gærkvöld en reikna má með að hún verði frá æfingum og keppni næstu vikurnar.
Nánar er rætt við Guðbjörgu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.