Knattspyrnumaðurinn Marel Jóhann Baldvinsson er genginn til liðs við Val frá Breiðabliki. Félögin komust að samkomulagi um félagaskiptin í dag en Marel átti eitt ár eftir af samningi sínum við Breiðablik.
Marel skoraði 6 mörk í 19 leikjum með Breiðabliki í Landsbankadeildinni á síðustu leiktíð en eins og Morgunblaðið greindi frá á dögunum átti hann í deilu við forráðamenn Kópavogsliðsins um launamál.
Hann kom til liðs við Breiðablik á ný frá Molde í Noregi fyrir síðasta tímabil. Marel hefur einnig leikið með Lokeren í Belgíu og Stabæk í Noregi og á að baki 17 A-landsleiki fyrir Ísland. Hann er 28 ára og er næst markahæsti leikmaður Breiðabliks í efstu deild frá upphafi með 23 mörk í 47 leikjum fyrir félagið.