Dómari fékk blindrastaf í pósti

Terje Hauge.
Terje Hauge. AP

Espen E. Arntzen stuðningsmaður norska knattspyrnuliðsins Rosenborg frá Þrándheimi var ekki sáttur við dómarann Terje Hauge sem dæmdi leik liðsins gegn Odd/Grenland s.l. sunnudag. Arntzen er eldheitur stuðningsmaður Rosenborgar og fór hann yfir málin á vinnustaðnum í byrjun vikunnar og komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti að senda Hauge skýr skilaboð um að hann væri ekki að standa sig í dómgæslunni.

Það gerði Arntzen og blindrastafurinn komst til skila til Hauge í Osló. Í bréfi sem fylgdi gjöfinni stóð m.a. „Miðað við þá upplifun sem ég og 15.900 aðrir áhorfendur fengum á Lerkendal þann 19. apríl s.l. þá tel ég að þú hafir not fyrir þetta tæki. Það er hægt að brjóta stafinn saman og þú kemur honum auðveldlega í stuttbuxurnar,“  skrifaði Arntzen í bréfinu sem fylgdi pakkanum.

Hauge hafði gaman af sendingunni og hefur hann notað blindrastafinn. "Ég ber virðingu fyrir þeim sem þora að koma fram undir nafni og gagnrýna störf dómara," sagði Hauge við norska dagblaðið Verdens Gang.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka