Klinsmann rekinn frá Bayern

Þýska knattspyrnuliðið Bayern München rak í morgun Jürgen Klinsmann, þjálfara liðsins, vegna slakrar frammistöðu liðsins að undanförnu. Bayern á meistarartitil að verja í Þýskalandi. Klinsmann, sem var um tíma landsliðsþjálfari Þýskalands, hefur haldið um stjórnvölinn hjá Bayern í átta mánuði.

Jupp Heynckes, fyrrum þjálfari liðsins, og Hermann Gerland munu stýra liði Bæjara í fimm síðustu leikjunum á tímabilinu en þeir eru í þriðja sæti í þýsku 1. deildinni, þremur stigum á eftir toppliði Wolfsburg. Bayern tapaði á heimavelli gegn Schalke, 0:1, á laugardaginn og það tap var kornið sem fyllti mælinn hjá forráðamönnum þýsku meistaranna.

Bayern München féll úr leik í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn Börsungum en liðið tapaði 4:0 á Nou Camp þar sem Barcelona skoraði öll mörkin í fyrri hálfleik og í seinni leiknum varð niðurstaðan jafntefli, 1:1.

Jürgen Klinsmann.
Jürgen Klinsmann. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert