Spánarmeistaratitilinn í knattspyrnu blasir við Barcelona eftir magnaðan útisigur Katalóníuliðsins á erkifjendum sínum Real Madríd, 6:2 á Santiago Bernabeu, heimavelli Real Madríd.
Gonzalo Higuain kom Real Madríd yfir í stórslagnum á 14. mínútu en Thierry Henry jafnaði metin á 18. mínútu og Carles Puyol, fyrirliði Barcelona skoraði svo gott skallamark á 20. mínútu. Staðan, 1:2.
Lionel Messi jók svo muninn fyrir Barcelona í 3:1 með marki á 35. mínútu. Mikill viðsnúningur hjá Barcelona eftir að hafa lent undir snemma. Real Madríd náði svo að minnka muninn í 3:2 með skallamarki frá Sergio Ramos á 56. mínútu en Thierry Henry var fljótur að svara og halda muninum í tveimur mörkum. Mark frá Henry á 58. mínútu, rétt rúmlega mínútu eftir að Real Madríd minnkaði muninn. Lionel Messi skoraði svo fimmta mark Barcelona á 75. mínútu eftir sendingu frá Xavi, en Xavi átti fjórar stoðsendingar í leiknum.
En leikmenn Barcelona voru ekki hættir og Gerard Pique skoraði sjötta mark Barcelona á 83. mínútu, 6:2. Eiður Smári Guðjohnsen var meðal varamanna Barcelona en kom ekkert við sögu í leiknum.
Sjö stig skilja Barcelona og Real Madríd eftir leikinn í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu og því ljóst að það stefnir í að Barcelona hampi meistaratitlinum.
Sjá má beina textalýsingu úr leiknum hér.