Þór/KA vann Stjörnuna í úrslitaleiknum

Deildabikarmeistarar Þórs/KA.
Deildabikarmeistarar Þórs/KA. mbl.is/Kristinn

Þór/KA sigraði Stjörnuna, 3:2, í úrslitaleiknum í deildabikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Lengjubikarnum, sem fram fór í Kórnum í Kópavogi í dag og vann þar með A-deild keppninnar í fyrsta skipti.

Björk Gunnarsdóttir kom Stjörnunni yfir á 34. mínútu með skoti af 25 metra færi, 1:0.

Slóvenska landsliðskonan Mateja Zver jafnaði fyrir Þór/KA á 62. mínútu eftir að hafa tætt vörn Stjörnunnar í sig, 1:1. Rétt á undan komst Rakel Hönnudóttir í algjört dauðafæri en Sandra Sigurðardóttir markvörður Stjörnunnar bjargaði þá á síðustu stundu.

Stjarnan komst yfir á ný á 75. mínútu þegar Inga Birna Friðjónsdóttir skoraði af stuttu færi eftir varnarmistök norðankvenna, 2:1.

Á 84. mínútu greip Sandra markvörður Stjörnunnar boltann utan vítateigs og fékk fyrir vikið rautt spjald. Úr aukaspyrnunni sem dæmd var á hana skoraði Mateja Zver sitt annað mark fyrir Þór/KA, 2:2.

Manni fleiri náði Þór/KA að knýja fram sigur, 3:2, þegar Rakel Hönnudóttir skoraði í uppbótartíma.

Þetta er í raun fjórða árið í röð sem Þór/KA fagnar sigri í deildabikarnum en þrjú undanfarin ár hefur liðið unnið B-deild mótsins. Í ár lék það í  í A-deildinni þar sem sex efstu lið Íslandsmótsins spila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert