Þórsarar gerðu sér lítið fyrir og unnu stórsigur á Skagamönnum, 3:0, í fyrstu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Boganum á Akureyri í dag. Víkingur frá Ólafsvík vann Víking í Reykjavík óvænt í Víkinni, 2:1, og nýliðar Aftureldingar unnu góðan sigur á Fjarðabyggð, 1:0, austur í Neskaupstað. Selfoss og KA gerðu jafntefli, 1:1.
Einar Sigþórsson, Jóhann Helgi Hannesson og Sveinn Elías Jónsson skoruðu mörk Þórsara gegn ÍA.
Grétar Ali Khan kom Víkingi R. yfir gegn nöfnum sínum í Ólafsvík. Brynjar Kristmundsson jafnaði fyrir Ólsara og króatíski sóknarmaðurinn Josip Marosevic skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.
Enski framherjinn Paul Clapson tryggði Aftureldingu sigur á Fjarðabyggð í Neskaupstað, 1:0, með marki úr vítaspyrnu á 30. mínútu.
Steinn Gunnarsson kom KA yfir á 16. mínútu en Guðmundur Þórarinsson jafnaði fyrir Selfoss á 18. mínútu, 1:1, og þar við sat.
Annað kvöld eru tveir síðustu leikir 1. umferðar þegar HK mætir ÍR og Leiknir R. tekur á móti Haukum.