Barcelona spænskur bikarmeistari

Leikmenn Barcelona fagna einu af mörkunum í leiknum í kvöld.
Leikmenn Barcelona fagna einu af mörkunum í leiknum í kvöld. AP

Barcelona, lið Eiðs Smára Guðjohnsen, varð í kvöld spænskur bikarmeistari í knattspyrnu þegar það vann Athletic Bilbao,  4:1, í úrslitaleik í Madrid. Þetta er í 25. skipti sem Barcelona verður bikarmeistari en síðast gerðist það árið 1998. Eiður Smári var á varamannabekknum en var ekki skipt inn á. 

Það blés ekki byrlega fyrir Börsunga á fyrstu mínútunum, því Athletic Bilbao komst yfir strax á 9. mínútu með marki Gaizka Toquero Pinedo úr skalla.

Það var svo Yaya Toure sem jafnaði metin á 30. mínútu með þrumuskoti fyrir utan vítateig, sem endaði neðst í markhorni Bilbæinga.

Á 54. mínútu kom Lionel Messi Börsungum yfir, og Bojan Krkic bætti um betur á þeirri 57. Það var síðan fyrirliðinn Xavi sem rak smiðshöggið með marki leiksins, beint úr aukaspyrnu á 63. mínútu og þar við sat.

Börsungum vantar aðeins eitt stig til að fagna Spánarmeistaratitlinum, og þá mæta þeir Manchester United í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þann 27. maí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert