Haukar komust í dag í efsta sætið í 1. deild karla í knattspyrnu þegar þeir sigruðu Fjarðabyggð, 3:1, á gervigrasvellinum á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Jóhann Ragnar Benediktsson kom Austfirðingum yfir í fyrri hálfleik en í þeim seinni jafnaði Andri Janusson fyrir Hauka og Hilmar Rafn Emilsson tryggði Hafnarfjarðarliðinu sigur með tveimur mörkum.
Haukar eru þá með 6 stig á toppnum eins og Víkingur frá Ólafsvík en það eru einu liðin sem hafa unnið báða leiki sína í fyrstu tveimur umferðunum. Fjarðabyggð og ÍR sitja hinsvegar í botnsætunum, án stiga.