Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði í dag sitt fyrsta mark í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það reyndist heldur betur dýrmætt því hún tryggði Linköping sigur gegn Djurgården á útivelli, 1:0, með marki á 82. mínútu leiksins.
Margrét Lára kom inná sem varamaður á 70. mínútu en það hefur verið hlutskipti hennar í meirihluta leikjanna til þessa. Hún fékk sendingu frá dönsku landsliðskonunni Cathrine Paaske Sörensen og gerði úrslitamarkið.
Guðrún Sóley Gunnarsdóttir lék að vanda allan leikinn í vörn Djurgården en Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður er áfram frá keppni vegna meiðsla í öxl.
Linköping komst með sigrinum í annað sætið með 16 stig en Umeå er efst með 18 stig. Malmö, lið Dóru Stefánsdóttur, er með 15 stig og getur komist uppfyrir Umeå og í toppsætið með því að sigra AIK á útivelli á þriðjudaginn.