Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, tapaði í dag í sjöunda skipti í jafnmörgum leikjum í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, 2:3 heima gegn Örebro. Fimm íslenskar landsliðskonur tóku þátt í leiknum en engin þeirra skoraði að þessu sinni.
Hólmfríður Magnúsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir og Erla Steina Arnardóttir léku með Kristianstad og þær Edda Garðarsdóttir og Ólína G. Viðarsdóttir með Örebro. Allar spiluðu leikinn á enda nema Hólmfríður sem fór af velli nokkrum mínútum fyrir leikslok.
Örebro komst með sigrinum í þriðja sætið með 15 stig, jafnmörg og toppliðin Umeå og Malmö, en Kristianstad situr áfram á botninum. Það vantaði þó ekki marktilraunir hjá Kristianstad í dag því liðið átti 18 skot á mark Örebro, gegn 10 skotum gestanna.