Fjarðabyggð vann í dag góðan sigur á Skagamönnum, 4:2, en liðin áttust við í 1. deild karla í knattspyrnu á Eskifirði í dag. Heimamenn fóru á kostum í fyrri hálfleik en þegar flautað var til leikhlés var staðan, 4:0.
Fannar Árnason kom Fjarðabyggð yfir með marki úr skalla skömmu eftir að leikurinn hófst. Jóhann Ragnar Benediktsson bætti við öðru marki úr vítaspyrnu á 9. mínútu. Fannar Árnason skoraði síðan á ný með skalla eftir langt innkast á 18. mínútu og var það keimlíkt fyrsta marki leiksins. Jóhann Ragnar bætti síðan við fjórða markinu með skoti beint úr aukaspyrnu.
Akurnesingar náðu að rétta sinn hlut í seinni hálfleik. Arnar Gunnlaugsson skoraði fyrra markið úr vítaspyrnu og Helgi Pétur Magnússon það síðara.
Þetta voru fyrstu stig Fjarðabyggðar á mótinu en Skagamenn hafa aðeins eitt stig eftir þrjá leiki.