Forráðamenn sænska knattspyrnuliðsins Elfsborg segjast ekkert hafa heyrt frá þýska 2. deildarliðinu Hansa Rostock varðandi landsliðsmanninn Helga Val Daníelsson en þýska knattspyrnublaðið Kicker greindi frá því í gær að Hansa Rostock hefði áhuga á að fá Helga í sínar raðir í sumar.
Helgi Valur hefur verið í herbúðum Elfsborg frá því í desember 2007 en hann kom til liðsins frá Öster og samdi til þriggja ára. Hann hefur verið fastamaður í Elfsborg-liðinu sem er sem stendur í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar, er stigi á eftir Gautaborg.
Hansa Rostock, sem féll úr Bundesligunni í fyrra, hafnaði í 14. sæti í 2. deildinni á nýliðnu tímabili.