Yngstur þjálfara til að vinna Meistaradeildina

Guardiola fær tolleringu frá liðsmönnum sínum í kvöld.
Guardiola fær tolleringu frá liðsmönnum sínum í kvöld. Reuters

Josep Guardiola, knattspyrnustjóri Barcelona, er yngsti þjálfarinn sem unnið hefur Meistaradeildina. Guardiola, sem er fyrrum leikmaður og fyrirliði Barcelona, er 38 ára gamall og á sínu fyrsta ári með liðið sem þjálfari.

Guardiola hefur átt ótrúlegri velgengni að fagna sem þjálfari Börsunga, en hann gerði liðið að Spánarmeisturum, bikarmeisturum og nú Evrópumeisturum, eftir 2:0 sigur á Manchester United í kvöld. Þá lagði hann erkióvininn í Real Madrid á þeirra eigin heimavelli, 6:2 í vetur, sem er ekki minna afrek í hugum aðdáenda liðsins.

Guardiola er þó ekki yngsti þjálfarinn í sögunni sem sigrar þessa keppni, en Evrópukeppni meistaraliða, sem er undanfari Meistaradeildarinnar, var sigruð árið 1956 af Real Madrid, en þá var José Villalonga Llorente þjálfari liðsins, 36 ára gamall og 184 dögum betur.

Meistaradeildin var hinsvegar stofnuð árið 1992 og er Guardiola yngsti þjálfarinn sem unnið hefur þá keppni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert