Þeir Paolo Maldini hjá AC Milan, Louis Figo hjá Inter, og Pavel Nedved hjá Juventus, léku allir sinn síðasta fótboltaleik í gær, þegar lokaumferðin á Ítalíu fór fram. Allir hafa þeir átt mikilli velgengni að fagna á vellinum og hafa þeir markað spor sín í knattspyrnusöguna.
Maldini hefur verið hjá AC Milan í 24 ár, síðan 1985 og er á fertugasta og fyrsta aldurs ári. Hann hefur unnið sjö meistaratitla á Ítalíu, fimm meistaradeildartitla, fimm Ofurbikara og einn bikarmeistaratitil, auk fjölda annarra minni titla.
Þá er hann leikjahæsti leikmaður Ítalíu frá upphafi, með 126 leiki að baki.
Portúgalinn Louis Figo var kjörinn knattspyrnumaður Evrópu árið 2001, en hann hóf ferilinn með Sporting Lissabon áður en hann hélt til Barcelona, Real Madrid og loks Inter hvar hann hefur verið frá 2005, en hann er nú 36 ára gamall. Hann á að baki 127 landsleiki fyrir Portúgal.
Pavel Nedved, sem er 36 ára gamall, sló fyrst í gegn á EM í Englandi 1996, þegar Tékkland komst í úrslit gegn Þjóðverjum nokkuð óvænt. Sama ár gekk hann til liðs við Lazio á Ítalíu, en árið 2001 gekk hann til liðs við Juventus fyrir 41 milljón evra og átti að fylla skó Zinedine Zidane sem farið hafði til Real Madrid. Nedved var kjörinn knattspyrnumaður Evrópu 2003 og á að baki 91 landsleik fyrir Tékkland.