Gríska liðið Panathinaikos og franska liðið Marseille hafa beint sjónum sínum að Eiði Smára Guðjohnsen að því er fram kemur í spænskum fjölmiðlum í dag.
Að því er fram kemur í spænska íþróttablaðinu Diario Sport hefur gríska stórliðið haft Eið undir smásjánni í nokkurn tíma og hyggst reyna að fá Íslendinginn í sínar raðir en Helgi Sigurðsson lék með liðinu á árum árum.
Þá segir Diario Sport frá því að franska liðið Marseille sé með augastað á Eiði Smára. Það er ekki í fyrsta sinn en liðið bar víurnar í hann í vetur.
Í síðustu viku var Eiður orðaður við franska liðið Lyon, spænska liðið Atlético Madrid og tyrkneska liðið Besiktas og í síðasta mánuði komu fregnir af því að hann gæti farið til Bayern München í skiptum fyrir Franck Ribery.
Eiður Smári, sem varð fyrstur Íslendinga til að verða Spánarmeistari og Evrópumeistari, á eitt ár eftir af samningi sínum við Börsunga en líklegt er að hann yfirgefi meistarana í sumar og greinilegt er að mörg félög víðs vegar um heiminn fylgjast grannt með gangi mála.