„Ég mun ekki gefa kost á mér í bili. Ekki miðað við óbreytta stöðu alla vega,“ sagði knattspyrnumaðurinn Theódór Elmar Bjarnason í samtali við Morgunblaðið í gær en hann hefur ákveðið að draga sig úr íslenska landsliðshópnum sem hélt áleiðis til Makedóníu í gær, vegna skorts á tækifærum með liðinu.
Elmar var einn þeirra 22 sem valdir voru fyrir leikina við Holland og Makedóníu en var svo ekki í 18 manna leikmannahópnum sem Ólafur Jóhannesson þjálfari valdi fyrir Hollandsleikinn á laugardaginn. Hann hefur einungis leikið 50 mínútur af þeim 540 sem Ísland hefur leikið í undankeppni HM til þessa.
„Manni finnst þetta skrýtið í því ljósi að það er verið að tala um að liðið þurfi að koma framar á völlinn en svo eru bakverðir notaðir á köntunum. Með fullri virðingu fyrir þeim, því þeir eru góðir leikmenn í sinni stöðu, þá finnst manni þetta undarlegt,“ sagði Elmar sem er kantmaður og á mála hjá norska úrvalsdeildarfélaginu Lyn.
Sjá ítarlegra viðtal við Theódór í Morgunblaðinu í dag.