Kaká til Real Madrid fyrir metfé

Brasilíumaðurinn Kaka spilar með Real Madrid næsta vetur.
Brasilíumaðurinn Kaka spilar með Real Madrid næsta vetur. Reuters

Ítalska félagið AC Milan tilkynnti nú undir kvöld að búið sé að ganga frá samningi við spænska félagið Real Madrid um kaup þess á brasilísku stórstjörnunni Kaká. Kaupverðið er talið nema 56 milljónum punda eða 11,3 milljörðum íslenskra króna.

Dýrasti leikmaður sögunnar til þessa var Zinedine Zidane sem kom til Real Madrid frá Juventus fyrir 47 milljónir punda árið 2001. Kaká hefur því slegið það met.

Kaká er sagður hafa skrifað undir sex ára samning og mun þessi frábæri leikmaður eflaust reynast spænska liðinu öflugur liðsstyrkur en Real Madrid landaði ekki einum titli á nýliðinni leiktíð.

Kaká er 27 ára gamall og hefur leikið með AC Milan frá árinu 2003 en þangað kom hann frá Sao Paulo. Hann skoraði 70 mörk fyrir Milan í 193 leikjum en Kaká leikur oftast sem framliggjandi miðjumaður. Hann er fyrsti leikmaðurinn sem Real kaupir eftir að Florentino Perez var að nýju kjörinn forseti félagsins fyrir skömmu.

Þessar fréttir þýða að hinn nýi stjóri AC Milan, Leonardo, mun hafa nægt fé á milli handanna í sumar til að festa kaup á leikmönnum en hann mun m.a. þurfa að fylla skörð ekki minni manna en Kaká og Paolo Maldini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert