Vonir Finna um að komast í lokakeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu eru nánast að engu orðnar eftir ósigur, 0:3, gegn Rússum á heimavelli í kvöld en liðin voru og eru í öðru og þriðja sætinu í 4. riðli undankeppninnar.
Tvö stig skildu þau að fyrir leikinn og Finnar gátu því komist uppfyrir Rússana og í annað sætið. Lærisveinar Guus Hiddinks gáfu aldrei tækifæri á því, Alexander Kerzhakov kom þeim í 2:0 með mörkum, sitt hvoru megin við leikhlé og Kostatin Zurianov innsiglaði sigurinn.
Þjóðverjar eru með 16 stig á toppi riðilsins og Rússar eru með 15 en Finnar koma næstir með 10 stig og Walesbúar með 9. Ljóst er að Þjóðverjar og Rússar heyja einvígi um hvort liðið kemst beint í lokakeppnina í Suður-Afríku en liðið í öðru sæti þarf að fara í umspil.