Pétur Pétursson: Reynum að drepa leikinn niður

Arnór Smárason verður í fremstu víglínu gegn Makedóníumönnum í Skopje …
Arnór Smárason verður í fremstu víglínu gegn Makedóníumönnum í Skopje í dag. mbl.is/hag

,,Við munum spila mun aftar á vellinum en við höfum verið að spila og reyna að drepa leikinn eins niður og mögulegt. Hitinn er gríðarlegur hérna og menn geta ekki hlaupið mjög í svona aðstæðum," sagði Pétur Pétursson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu við mbl.is í morgun en Íslendingar etja kappi við Makedóníumenn í undankeppni HM í Skopje í dag.

,,Það var vitað mál að við þyrftum að stokka mikið upp í liðinu og nú fá menn eins og Sölvi Geir, Eggert og Arnór tækifæri til að láta ljós sitt skína. Við gerum okkur vel grein fyrir því að þetta verður býsna erfiður leikur en við erum með eitt stig þegar leikurinn hefst, ætlum að reyna að verja það og reyna að bæta tveimur við,“ sagði Pétur Pétursson.

,,Makedóníumennirnir hafa gefið það út að þeir ætli að pressa okkur mjög framarlega og ætla sér ekkert annað en sigur. Þeir eru flinkir og góðir með boltann en eiga það til að henda sér niður út um allan völl og við verðum að vera vakandi yfir því,“ sagði Pétur.

Íslendingar og Makedóníumenn hafa 4 stig í riðlinum. Bæði hafa unnið einn leik og gert eitt jafntefli en Íslendingar hafa tapað fjórum leikjum á meðan Makedóníumenn hafa tapað þremur. Makedóníumenn lögðu Skota, 1:0, í aðstæðum sem eru líkar í dag, og þá gerðu þeir markalaust jafntefli gegn Norðmönnum á heimavelli um síðustu helgi.

Íslendingar höfðu betur í fyrri leik þjóðanna, 1:0, með marki Veigars Páls Gunnarssonar.

Flautað verður til leiks í Skopje klukkan 15.45 og verður hægt að fylgjast með gangi mála í leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert