Leiknir jafnaði á síðustu stundu

Þórhallur Dan og félagar í Haukum töpuðu en Arnar Gunnlaugsson …
Þórhallur Dan og félagar í Haukum töpuðu en Arnar Gunnlaugsson skoraði fyrir ÍA sem vann í Ólafsvík. mbl.is/Ómar

Tíu HK-ingar voru hársbreidd frá því að landa sigri á Leikni R. í kvöld þegar fjórir leikir fóru fram í sjöttu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu. Ólafur Hrannar Kristjánsson jafnaði í 1:1 fyrir Leikni á 90. mínútu. ÍR vann Aftureldingu 2:1, ÍA vann Víking í Ólafsvík 2:0 og KA lagði topplið Hauka að velli 1:0. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

David Disztl tryggði KA sigur á Akureyri þegar liðið vann Hauka 1:0 og kom sér í fjórða sæti deildarinnar. Eyþór Guðnason gerði bæði mörk ÍR sem vann Aftureldingu 2:1 en Albert Ástvaldsson minnkaði muninn fyrir Aftureldingu sem missti Sævar Frey Alexandersson af velli með rautt spjald á 84. mínútu.

Andri Júlíusson og Arnar Gunnlaugsson voru á skotskónum þegar ÍA vann góðan sigur á Víkingi í Ólafsvík, 2:0, og dramatíkin var mikil á Kópavogsvelli þar sem heimamenn í HK gerðu 1:1 jafntefli við Leikni. HK missti fyrirliða sinn, Ásgrím Albertsson, af velli á fjórðu mínútu en komst yfir með marki Brynjars Víðissonar á 40. mínútu. Ólafur Hrannar jafnaði hins vegar fyrir Leikni eins og áður segir. Markið og brottvísunina má sjá í textalýsingu á vef HK, smellið hér.

Lið Hauka og Selfoss eru efst í deildinni með 13 stig en Selfoss hefur leikið fimm leiki. HK hefur 11 stig, KA er með tíu, ÍR níu og ÍA, Víkingur R. og Fjarðabyggð hafa sjö stig en tvö síðastnefndu liðin eiga leik til góða. Víkingur Ó. er í 9. sæti með sex stig, Afturelding er með fimm og Leiknir hefur þrjú stig líkt og Þór sem á leik til góða.

19:15 KA - Haukar 1:0

Það var markalaust í hálfleik á Akureyrarvelli eftir ansi bragðdaufan fyrri hálfleik. David Disztl kom heimamönnum yfir á 73. mínútu eftir góða sókn fram hægri kantinn. Lokatölur 1:0 á Akureyri.

20:00 ÍR - Afturelding 2:1

Eyþór Guðnason kom ÍR-ingum í 1:0 á 13. mínútu. Hann bætti svo við öðru marki á 75. mínútu. Sævar Freyr Alexandersson úr Aftureldingu fékk að líta rauða spjaldið á 84. mínútu fyrir brot. Albert Ástvaldsson minnkaði þó markamuninn fyrir Aftureldingu á 88. mínútu, 2:1.

20:00 Víkingur Ó. - ÍA 0:2

Andri Júlíusson kom Skagamönnum yfir strax á 2. mínútu með góðu skoti eftir að Víkingum hafði mistekist að koma boltanum í burtu. Arnar Gunnlaugsson bætti við marki fyrir ÍA á 38. mínútu eftir sendingu frá Guðjóni Heiðari Sveinssyni, 2:0.

20:00 HK - Leiknir R. 1:1

Ásgrímur Albertsson fyrirliði HK var rekinn af velli strax á fjórðu mínútu fyrir að brjóta á Leiknismanni sem var sloppinn einn í gegn um vörn HK. Tíu HK-ingar komust í 1:0 á 40. mínútu með marki Brynjars Víðissonar eftir snarpa sókn. Ólafur Hrannar Kristjánsson jafnaði svo metin á 90. mínútu þegar hann slapp einn inn fyrir vörn HK og lokastaðan 1:1 í Kópavoginum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert