Knattspyrnu er gjarnan líkt við trúarbrögð og ekki að ósekju. Knattspyrnan er vissulega meira en leikur, og í tilfelli Real Madrid er hún uppspretta peninga, enda er félagið það ríkasta í heimi, að mati Deloitte. Þeir 29 milljarðar sem félagið hefur eytt í kaup á Kaká og Ronaldo eru aðeins eggin sem brjóta þarf til að gera heimsins stærstu og bestu eggjaköku, að mati Florentino Perez, forseta félagsins.
Real Madrid hefur þegar eytt um 29 milljörðum íslenskra króna í kaup á Kaká og Ronaldo, eða um 136 milljónum punda. Florentino Perez segir kaupin munu aðeins auka veltu félagsins.
„Við getum aukið tekjur félagsins með því að setja okkur þrenn markmið. Að auka miðasölu, hækka yfirdráttinn, og auka heildarvirði félagsins. Tekjur okkar nema um 400 milljónum evra á ári, en þriðjungur kemur úr miðasölu, þriðjungur vegna sjónvarpsréttinda og þriðjungur vegna sölu á varningi tengdum félaginu,“ sagði Perez.
Nokkrar staðareyndir um Real Madrid:
- Liðið hefur keypt þrjá dýrustu leikmenn heims: Zidane, Kaká og Ronaldo.
- Var ríkasta félag heims keppnistímabilið 2007-08, með tekjur upp á 365.8 milljarða evra. Í öðru sæti var Manchester United með 324, 8 milljarða og Barcelona var í þriðja sæti með 308.8 milljarða í tekjur.
-Tekjur liðsins árið 2007-08 jukust um 4% frá því árinu áður og voru samtals 290 milljónir punda.
- Þar af komu 37% teknanna vegna sjónvarpsréttarsamninga, og 35% vegna sölu merkjavöru, helst keppnistreyja félagsins. Tekjur af miðasölu voru 28% af heildarinnkomunni.
- Líkt og Barcelona, er Real Madrid ekki á frjálsum markaði, heldur er félagið í eigu þúsunda stuðningsmanna, svonefndra „socios“, sem kjósa einnig forseta félagsins.
- Þá á félagið afar fjársterka stuðningsaðila, eins og Adidas, Bwin.com, Coca-Cola og Audi, en félagið nýtur einnig sjóða hins opinbera, umfram önnur félög. Til að mynda, þá seldi Real Madrid æfingarsvæði sitt árið 2001, til fjögurra fyrirtækja og borgarinnar, sem er talin hafa borgað hátt yfirverð til þess að stroka út skuldir félagsins, sem á móti gat keypt leikmenn á borð við Figo, Zidane, Ronaldo og Beckham.
- Félagið var valið verðmætasta knattspyrnuvörutegundin árið 2007.
- Félagið á yfir 246 milljónir stuðningsmanna um allan heim.
- Félagið fékk 762 milljónir evra árið 2007 fyrir ímyndarsamning við Adidas.
- Félagið fékk 1.1 billjón evra fyrir sjónvarpsréttarsamning við Mediapro árið 2006, sem gildir í sex ár, eða 150 milljónir evra á ári.
- Fékk flesta áhorfendur á leiki sína af öllum félögum í Evrópu 2007-08, eða 76,234 að meðaltali, en heimavöllur þeirra, Santiago Bernabéu, tekur samtals 80,354 manns í sæti.
- Félagið er sigursælasta félag Spánar, með 31 meistaratitil. Þá hefur félagið einnig oftast unnið Evrópukeppni meistaraliða/Meistaradeild Evrópu, eða samtals 9 sinnum.
- Florentino Perez lét hafa eftir sér, þegar honum mistókst að krækja í Patrick Viera árið 2004, að hann myndi ekki greiða „varnarsinnuðum leikmönnum“ há laun.
- Perez, sem er menntaður verkfræðingur, er sagður eiga 1.8 billjónir evra og er í 397. sæti á lista Forbes yfir auðugustu menn í heimi. Hann er einnig stjórnarformaður ACS verktakafyrirtækisins.