Zinedine Zidane, ráðgjafi Florentino Perez, forseta Real Madrid, staðfesti í gær að liðið væri í viðræðum við Franck Ribéry, leikmann Bayern Munchen. Hefur Bayern sagt að aðeins „fáránlega“ háu tilboði yrði tekið í leikmanninn, sem ætti varla að vera vandamál fyrir Real Madrid, sem þegar hefur eytt 29 milljörðum íslenskra króna í þá Kaká og Ronaldo.
„Ég er í viðræðum við Franck. Hann er frábær leikmaður sem á best heima hjá Real. Að leika með Real er frábært tækifæri fyrir hvaða leikmann, nokkuð sem þú neitar ekki, að mínu mati. En þetta er allt í hans höndum“ sagði Zidane við dagblaðið Le Dauphine Libere í Frakklandi.
Talið er að Manchester United hafi einnig mikinn áhuga á Ribéry, til að fylla skarð Ronaldo, en ljóst er að töluverða upphæð þarf til að lokka hann frá Þýskalandi.